top of page
Vidines.jpg

Þann 9. sept. 1208 sló í bardaga milli manna Guðmundar Arasonar biskups og Kolbeins Tumasonar við Víðines í Hjaltadal. Kolbeinn hafði komið í Hóla með 400 manna lið ásamt Arnóri  bróður sínum (föður Kolbeins unga) og Sigurði Ormssyni Svínfellingi. Þeir kröfðust þess af biskupi að hann afhenti þeim menn úr liði biskups sem Kolbeinn taldi sig eiga sökótt við. Biskupinn neitaði að afhenda honum mennina og reið brott af staðnum.

Víðines í Hjaltadal

„Kolbeinn bað menn taka hesta sína, - lést eigi þola mega, at biskup riði brott með skógarmenn hans. Hann ríðr fyrir á veginn við fjögur hundruð manna ok fylkir liði sínu. Biskup víkr þá af veginum ok vildi ríða fram annars staðar. Þeir Kolbeinn snúa þar í mót. Ok er flokkarnir mætast, þá lýstr í bardaga. Biskup sat á hesti ok með honum ábótar ok nökkrir prestar og kallaði, at eigi skyldi berjast. At því gáfu engir gaum“ (Sturl. I, 1946. Bls. 248). 

 

Þótt biskupsmenn væru töluvert færri fór fyrirsát Kolbeins á annan veg en ætla hefði mátt. Einhver úr liði biskups kastaði steini í höfuð Kolbeini og var höggið banvænt. Sagt er að einhvern tíma fyrir bardagann hafi Kolbeinn ort bæn þá sem enn er sungin í kirkjum landsins, Heyr himna smiður, hvers skáldið biður, komi mjúk til mín, miskunnin þín ...

Höfundar texta: Sigríður Sigurðardóttir, Kristín Jónsdóttir og Sara R. Valdimarsdóttir. Ljósm. Sigríður Sigurðardóttir.

bottom of page