top of page

Haugsnes og Róðugrund

Haugsnes.jpg
haugsnessskiltid-1-.jpg
Grjotherinn.jpg

Félagið á Sturlungaslóð fékk leyfi til að koma upp róðukrossi (neðsta mynd) á grundunum fyrir vestan Haugsnesið og setja upp tvö skilti, annað skammt frá róðukrossi (fyrri skiltismynd), hitt við grjóther (seinni skiltismynd), þar sem Haugsnesbardagi hefur verið ,,sviðsettur" (mynd fyrir miðju).

Eftir að Kolbeinn ungi dó árið 1245 ólu fylgismenn hans á óvild milli ríkis Þórðar kakala í Eyjafirði og Ásbirninga. Misklíð milli héraðanna stigmagnaðist. Um páska 1246 leitaði ættarhöfðinginn Brandur Kolbeinsson á Stað í Reyninesi eftir stuðningi hjá Gissuri Þorvaldssyni, vini og bandamanni Kolbeins unga. Þórður kakali frétti það og brá við skjótt. Hann safnaði liði af öllu yfirráðasvæði sínu, bæði norðan og vestan og tjáði mönnum sínum á fundi á Grund í Eyjafirði að hann hyggðist ráðast inn í Skagafjörð og láta vopnin tala.

Þriðjudaginn eftir páskaviku hélt hann af stað vestur Öxnadalsheiði með 600 manna lið. Héldu þeir til Silfrastaða um kvöldið og lágu þar úti um nóttina. Það hvessti og söng vindur í spjótum, sem stungið hafði verið niður úti við. Vöknuðu menn við þetta og héldu að ráðist hefði verið á þá. Í glímuskjálfta og óðagoti var gripið til vopna og börðust menn í ákafa hver við annan um hríð. Einn maður féll og nokkrir særðust áður en menn áttuðu sig á hvers kyns var. Sýnir þessi atburður vel hversu ógnir ófriðarins voru farnar að sauma að taugum liðsmanna Þórðar. Menn voru komnir í óvinaland. Margir höfðu barist á Örlygsstöðum og voru minnugir þeirra atburða þar sem þeir biðu lægri hlut. Svo átti ekki að fara í þetta sinn. 

 

Brandur Kolbeinsson var viðbúinn og hafði safnað liði um Skagafjörð og Húnaþing. Hann var með 720 manna lið á Víðimýri. Reynt var að semja en kakalinn hafnaði öllum tillögum og vildi ráða öllum samningum sjálfur.

Nóttina fyrir bardagann gisti Þórður á Úlfsstöðum í Blönduhlíð. Lið Brands beið átekta á Víðimýri, illa fyrir kallað og ekki síður taugaveiklað en lið Þórðar. Sagt var að undarleg sótt hefði komið í liðið og féllu um þrjátíu manns í öngvit og urðu ófærir til bardaga. Bardagamorguninn hélt Brandur yfir Jökulsá og bjóst til bardaga. Valdi hann orrustustaðinn, „fyrir sunnan Djúpadal á skriðunni“ eins og segir í Þórðar sögu kakala. „þar heitir Haugsnes upp frá, sem bardaginn var frá ofan á grundinni“ segir síðan. Menn Brands fylktu liði móti hallanum. Þeir reiknuðu ekki með að Þórður kæmi með fjallinu frá Úlfsstöðum, en hann kom þeim þar á óvart. Lið hans kom sunnan og neðan frá, á hlið fylkingarinnar yfir torfgrafir fornar sem þar voru.

Orrustuvöllurinn var hörð, uppgróin skriða, þar sem grjót var nóg. Þótt Þórður kæmi Skagfirðingum á óvart með því að ráðast beint yfir torfgrafirnar, voru þær fremur seinfærar og dróust fylkingararmarnir aftur úr. Hann var sjálfur fremstur í miðri fylkingunni sem varð eins og fleygur eða örvaroddur í laginu og veikti það framrásina. Áhlaup Þórðar var samt hart og mikið og eins og í Flóabardaga réðist hann af hörku gegn óvininum. Riðlaðist mjög fylking Skagfirðinga en þeir vörðust af kappi. Fremstur var Brandur Kolbeinsson og með honum Jón Skíðason, sem nefndur var kórkjappi. Hafði hann verið með Kolbeini unga í Örlygsstaðabardaga. Hann réðst beint að Þórði kakala og kom á hann lagi svo Þórður féll við. Æptu Skagfirðingar af gleði því þeir héldu að Þórður væri fallinn. Svo var ekki því Þórður var vel brynjaður. Réðist Jón á hann aftur og aftur og mátti hann hafa sig allan við að verjast. Árásum Jóns  var ekki hrundið fyrr en Hrani Koðránsson liðsmaður kakalans kom með stóran stein og rak í bringu Jóns, sem banaði honum og féll hann þar með mikilli sæmd.

 

Eftir þetta harðnaði orrustan. Menn Brands réttu hlut sinn og tóku á móti áhlaupi Þórðar. Mátti ekki á milli sjá um hríð. Svo brast skyndilega flótti í lið Skagfirðinga. Þórður hafði af herkænsku sinni komið manni fyrir í liði þeirra. Hét hann Einar og var kallaður auðmaður og bjó í Vík í Sæmundarhlíð. Allt í einu stökk hann af stað og lést flýja og stukku margir á eftir honum. Vinstri fylkingararmur Skagfirðinga, sem skipaður var Fljótamönnum og Slétthlíðingum, flúði þó hvergi heldur réðst frá hlið á fylkingu Þórðar. Féllu þar tuttugu af hans mönnum. Það dugði ekki því flótti brast á liðið „og var það fjöldi manna. En ef þeir hefði staðið kyrrir, þó að þeir hefði ekki annað gert, þá hefðu Skagfirðingar kosið á við Norðanmenn“, segir í sögunni. Ekki dugði þótt Brandur og nokkrir kappar hans berðust eins og hetjur því meginherinn var lagður á flótta. Þessi litli hópur sem eftir stóð var brytjaður niður. Brandur komst sjálfur upp á hest og reyndi að flýja en komst ekki langt því menn Þórðar náðu honum á þeim slóðum sem nú er bærinn Syðsta-Grund. Þar var hann drepinn. 

 

Í Haugsnesbardaga féllu um 40 manns af liði Þórðar og yfir 60 af liði Brands. Hér snérust úrslitin frá Örlygsstaðabardaga við því þarna töpuðu Skagfirðingar. Fall Brands markaði lok á valdatíma Ásbirninga. Þórður kakali tók við ríki þeirra. Gissur Þorvaldsson, bandamaður Ásbirninga, safnaði her og ætlaði norður en menn Þórðar voru ekki fúsir til bardaga svo skömmu eftir orrustuna á Haugsnesi og fékk hann ekki liðstyrk til að leggja í hernað á móti Gissuri. Hann samþykkti því að leggja málið í gerð Noregskonungs þar sem báðir voru þeir hirðmenn konungs og urðu að taka tillit til kvaða sem því fylgdi.

Róðugrund


Brandur Kolbeinsson, foringi Ásbirninga, var höggvinn á grundinni við Syðstu-Grund og var þar reistur róðukross til minningar um hann, sem jörðin dró nafn sitt af um tíma og var kölluð Róðugrund. Er sagt að sá kross hafi staðið fram á 16. öld. Sumarið 2009 var reistur annar róðukross til minningar um Ásbirningana sem vörðust og börðust gegn ásóknum annarra til valda í Skagafirði á 13. öld. Krossinn var vígður þann 15. ágúst 2009. Listamaðurinn Jón Adólf Steinólfsson skar róðuna og smíðaði krossinn. Helgi Sigurðsson, torf- og grjóthleðslumeistari, stýrði vörðuhleðslunni, sem er undirstaða krossins.

Rodukross.jpg

Höfundar texta: Sigríður Sigurðardóttir, Kristín Jónsdóttir og Sara R. Valdimarsdóttir. Ljósm. Sigríður Sigurðardóttir.

bottom of page