top of page

Víðimýri

Víðimýri var eitt af höfuðbólum Ásbirninga, sem var valdaættin í  Skagafirði á 13. öld. Um aldamótin 1200  bjó þar Kolbeinn Tumason, skáld og gorðorðsmaður. Guðmundur góði Arason var staðarprestur hjá honum áður en hann var vígður biskup á Hólum 1203. Þeir voru góðir vinir þá en vegna deilna um stjórnarfar landsins og afskipta kirkjunnar af veraldlegum málum skildu þeir í fjandskap, sem lauk með falli Kolbeins í Víðinesbardaga 1208. Kolbeinn var eitt af höfuðskáldum þjóðarinnar á sinni tíð og samdi m.a. sálminn Heyr himnasmiður sem enn er sunginn.

Vidimyri3.jpg

Núverandi kirkja á Víðimýri var reist 1834 af Jóni Samsonarsyni bónda og alþingismanni frá Keldudal í Hegranesi. Hún er að mestu smíðuð úr rekaviði, með torfþaki og torfveggjum. Spjaldþil eru í trégrind og reisifjöl í þekju. Flestar íslenskar kirkjur voru af þessari gerð fram eftir 19. öld. Kirkjan er enn sóknarkirkja. Árið 1934 keypti Þjóðminjasafnið kirkjuna og lét gera við hana. Í dag þykir hún gersemi og frábært sýnishorn af gamalli íslenskri byggingarhefð. Kirkjan á Víðimýri er eitt glæsilegasta torfhús landsins. Hún er í húsasafni Þjóðminjasafns Íslands. 

Höfundar texta: Sigríður Sigurðardóttir, Kristín Jónsdóttir og Sara R. Valdimarsdóttir. Ljósm. Sigríður Sigurðardóttir.

bottom of page