Félagið á Sturlungaslóð
Félagið Á Sturlungaslóð var stofnað árið 2008. Félagið hefur staðið fyrir margvíslegri starfsemi og stóð fyrir ýmiskonar viðburðum sem voru öllum opnir:
-
Á hverju ári, jafnvel tvisvar hvert ár, í febrúar-mars og í nóvember, bauðst fólki að taka þátt í samlestri þar sem valin var ákveðin saga úr Sturlungasögusafninu. Lesið var vikulega, á sunnudögum. Við lesturinn var pælt í sögunum, atburðarásinni og hvers vegna hún varð og persónur og sögusvið tengd.
-
A.m.k. einu sinni á sumri var boðið upp á sögustundir, erindi voru flutt um ýmis málefni tengd sögunni og fór eftir því hvar erindið var haldið hver áherslan var.
-
Farið var í gönguferðir, að lágmarki einu sinni á ári, um söguslóðir með leiðsögumanni sem þekkti söguna og staðhætti vel.
-
Félagar á Sturlungaslóð tóku þátt í fjölda málþinga, funda og ráðstefna um hin ýmsu málefni sem snertu sögu Sturlungaaldar á meðan félagið starfaði.
-
Félagið var lagt niður þann 19. apríl árið 2021.
Myndir frá sögudögum. Sú fyrri er tekin 15. ágúst 2009, þegar róðukrossinn við Róðugrund var vígður. Á þeirri síðari eru krásir á borðum á Ásbirningablóti í Kakalaskála árið 2012.
Félagið stóð fyrir endurútgáfu á ritinu Á Sturlungaslóð í Skagafirði árið 2017. Árni Daníel Júlíusson og Sigríður Sigurðardóttir skrifuðu textann. Í ritinu eru myndir af olíumálverkaseríu Jóhannesar Geirs, listmálara, þar sem hann túlkar uppgjör valdaætta í Skagafirði á Sturlungaöld. Í ritinu er ástand þjóðmála og baksvið átaka á 13. öld útskýrð og fjallað um atburði sem urðu á ýmsum stöðum s.s. : í Víðinesi, á Hólum, Flugumýri, við Haugsnes, á Örlygsstöðum og víðar. Rit þetta kom fyrst út árið 2003 á vegum Byggðasafns Skagfirðinga og Hérðasskjalasafn Skagfirðinga. Ritið er til sölu í Kakalaskála og víðar í Skagfirði.
Árið 2014 gaf félagið út litabókina Ásbirningasaga til að lesa og lita. Bryndís Björgvinsdóttir, myndlistarkona og þjóðfræðingur, teiknaði myndirnar. Textann skrifaði Sigríður Sigurðardóttir. Ásbirningasaga fjallar um atburði sem gerðust í Skagafirði á Sturlungaöld þegar frændur, vinir og óvinir börðust um að fá að stjórna öllu þar. Á hverri blaðsíðu er stutt saga og teikning af persónum og atburðum til að lesa og lita. Bókin er til sölu í Kakalaskála.
Skagafjörður hefur eins og önnur blómleg héruð dregið til sín landnema fljótlega eftir að land tók að byggjast. Ef rétt er hermt í Landnámabók, hefur héraðið verið albyggt á fyrri hluta 10. aldar. Fornleifar styðja þetta og gefa vísbendingu um þétta byggð í miðhéraðinu og afdölum frá 11. og fram á 14 öld. Hluti þessara byggðaleifa er nafnlaus meðan annarra er getið í heimildum. Félagið gaf út kort (á íslensku, þýsku og ensku) þar sem hægt er að finna bæjarnöfn og örnefni í Skagafirði sem koma fyrir í heimildum frá því fyrir 1400. Heimildirnar sem lagðar eru til grundvallar á kortinu eru Íslendingasögur, einkum Landnámabók og Kristni saga en auk þeirra Sturlunga og 14. aldar máldagar (þ.e. samningar eða kaupmálar, skrár um eignir kirkju og jarða). Til glöggvunar eru núverandi bæjanöfn höfð innan sviga séu þau frábrugðin þeim gömlu. Örnefni eru eins og þau koma fyrir í elstu heimild hverju sinni þótt önnur hafi síðar komið í þeirra stað. Staðir þessir og nöfn voru mönnum kunn á umbrotatímum Sturlungaaldar.
Verið velkomin á Sturlungaslóð!
Höfundar texta: Sigríður Sigurðardóttir, Kristín Jónsdóttir, Sara R. Valdimarsdóttir. Ljósmyndir: Sigríður Sigurðardóttir.