top of page

Félagið á Sturlungaslóð

Félagið Á Sturlungaslóð var stofnað árið 2008. Félagið hefur staðið fyrir margvíslegri starfsemi og stóð fyrir ýmiskonar viðburðum sem voru öllum opnir:

  • Á hverju ári, jafnvel tvisvar hvert ár, í febrúar-mars og í nóvember, bauðst fólki að taka þátt í samlestri þar sem valin var ákveðin saga úr Sturlungasögusafninu. Lesið var vikulega, á sunnudögum. Við lesturinn var pælt í sögunum, atburðarásinni og hvers vegna hún varð og persónur og sögusvið tengd. 

  • A.m.k. einu sinni á sumri var boðið upp á sögustundir, erindi voru flutt um ýmis málefni tengd sögunni og fór eftir því hvar erindið var haldið hver áherslan var. 

  • Farið var í gönguferðir, að lágmarki einu sinni á ári, um söguslóðir með leiðsögumanni sem þekkti söguna og staðhætti vel.

  • Félagar á Sturlungaslóð tóku þátt í fjölda málþinga, funda og ráðstefna um hin ýmsu málefni sem snertu sögu Sturlungaaldar á meðan félagið starfaði.

  • Félagið var lagt niður þann 19. apríl árið 2021.

I_bodi_1.jpg
I_bodi_2.jpg

Myndir frá sögudögum. Sú fyrri er tekin 15. ágúst 2009, þegar róðukrossinn við Róðugrund var vígður. Á þeirri síðari eru krásir á borðum á Ásbirningablóti í Kakalaskála árið 2012.

Bokin_A_Sturlungaslod.jpg
Litabok.jpg
Midaldir_baekl.jpg

Félagið stóð fyrir endurútgáfu á ritinu Á Sturlungaslóð í Skagafirði árið 2017. Árni Daníel Júlíusson og Sigríður Sigurðardóttir skrifuðu textann. Í ritinu eru myndir af olíumálverkaseríu Jóhannesar Geirs, listmálara, þar sem hann túlkar uppgjör valdaætta í Skagafirði á Sturlungaöld. Í ritinu er ástand þjóðmála og baksvið átaka á 13. öld útskýrð og fjallað um atburði sem urðu á ýmsum stöðum s.s. : í Víðinesi, á  Hólum, Flugumýri, við Haugsnes, á Örlygsstöðum og víðar. Rit þetta kom fyrst út árið 2003 á vegum Byggðasafns Skagfirðinga og Hérðasskjalasafn Skagfirðinga. Ritið er til sölu í Kakalaskála og víðar í Skagfirði.

Árið 2014 gaf félagið út litabókina Ásbirningasaga til að lesa og lita. Bryndís Björgvinsdóttir, myndlistarkona og þjóðfræðingur, teiknaði myndirnar. Textann skrifaði Sigríður Sigurðardóttir. Ásbirningasaga fjallar um atburði sem gerðust í Skagafirði á Sturlungaöld þegar frændur, vinir og óvinir börðust um að fá að stjórna öllu þar. Á hverri blaðsíðu er stutt saga og teikning af persónum og atburðum til að lesa og lita. Bókin er til sölu í Kakalaskála.

Skagafjörður hefur eins og önnur blómleg héruð dregið til sín landnema fljótlega eftir að land tók að byggjast. Ef rétt er hermt í Landnámabók, hefur héraðið verið albyggt á fyrri hluta 10. aldar. Fornleifar styðja þetta og gefa vísbendingu um þétta byggð í miðhéraðinu og afdölum frá 11. og fram á 14 öld. Hluti þessara byggðaleifa er nafnlaus meðan annarra er getið í heimildum. Félagið gaf út kort (á íslensku, þýsku og ensku) þar sem hægt er að finna bæjarnöfn og örnefni í Skagafirði sem koma fyrir í heimildum frá því fyrir 1400. Heimildirnar sem lagðar eru til grundvallar á kortinu eru Íslendinga­sögur, einkum Landnámabók og Kristni saga en auk þeirra Sturlunga og 14. aldar máldagar (þ.e. samningar eða kaupmálar, skrár um eignir kirkju og jarða).  Til glöggvunar eru núverandi bæja­nöfn höfð innan sviga séu þau frábrugðin þeim gömlu. Örnefni eru eins og þau koma fyrir í elstu heimild hverju sinni þótt önnur hafi síðar komið í þeirra stað. Staðir þessir og nöfn voru mönnum kunn á umbrotatímum Sturlungaaldar.

Verið velkomin á Sturlungaslóð!

Höfundar texta: Sigríður Sigurðardóttir, Kristín Jónsdóttir, Sara R. Valdimarsdóttir. Ljósmyndir: Sigríður Sigurðardóttir.

bottom of page