top of page

Reynistaður

Bærinn hét áður Staður í Reyninesi og var höfðingjasetur frá landnámi. Á fyrri hluta 10. aldar bjuggu landkönnuðirnir Þorfinnur karlsefni og Guðríður Þorbjarnardóttir þar, eftir að þau komu heim frá Vínlandi (N-Ameríku).

 

Á 13. öld var Reynistaður eitt af höfuðbólum Ásbirninga. Þar var Guðmundur góði Arason prestur árið 1198, hjá Kolbeini kaldaljósi. Frá Reynistað fór hann í Víðimýri til Kolbeins Tumasonar. Brandur sonur Kolbeins kaldaljóss tók við búinu á Reynistað og bjó þar til 1246, er hann var felldur í Haugsnesbardaga.

 

Þegar Gissur Þorvaldsson, sem var kvaddur til Noregs á konugsfund eftir Flugumýrarbrennu, kom til baka árið 1259 með jarlsnafnbót upp á vasann keypti hann Stað af Páli syni Kolbeins kaldaljóss, bróður Brands sem drepinn var í Haugsnesbardaga. Sjálfur fór Páll byggðum að Úlfsstöðum í Blönduhlíð. Hafði sama ættin þá setið Stað í Reyninesi (Reynistað) frá landnámstíma. Gissur jarl bjó á Stað til dánardags 1268 og sagt er að hann sé grafinn þar innan kirkju. Fyrir dauða sinn hafði hann gefið Reynistað undir nunnuklaustur. Klaustrið hóf starfsemi þar árið 1295 og var lagt niður 1552. 

 

Félagið á Sturlungaslóð fékk að setja upp skilti um ættaróðal og -höfðingja Ásbirninga á Reynistað.

Reynistadur.jpg
Reynistadur_gamli.jpg

Kirkja hefur sennilega verið á Reynistað frá 11. öld. Núverandi ­kirkja á Reynistað er reist 1868-1870 og er friðuð samkvæmt aldursákvæði laga um menningarminjar.

Þegar gamli bærinn á Reynistað var rifinn árið 1935 var bæjardyrahúsið látið standa en það er með stafverksgrind af þeirri gerð sem tíðkaðist á 18. öld og á rætur að rekja langt aftur í aldir.  

Segja má að bæjardyrahúsið sýni þá byggingargerð sem Ásbirningar og aðrir 13. aldar menn byggðu. Húsið var flutt til árið 1999, gert við viðina og það endurreist nálægt upphaflegum stað. Í kirkjugarðinn skammt frá kirkjunni. Það er í Húsasafni Þjóðminjasafns Íslands.

Höfundur texta: Sigríður Sigurðardóttir, Kristín Jónsdóttir og Sara R. Valdimarsdóttir. Ljósm. Sigríður Sigurðardóttir

bottom of page