Kakalaskáli og Kringlumýri
Kakalaskáli á Kringlumýri í Blönduhlíð og var opnaður árið 2012. Hann er hugsaður sem umhverfi fyrir sögumann sem segir frá atburðum á Sturlungaöld. Þar er boðið upp á sögustundir, sérsýningar og margt fleira. Listaverkasýning, sem helguð er sögu Þórðar kalala, var opnuð þar þann 18. ágúst 2019. Hægt er að fylgjast með hvað er í boði í Kakalaskála á fésbókarsíðu skálans.
Kringlumýri stendur undir snarbröttum Glóðafeyki. Skammt sunnan við bæinn er Haugsnes sem Haugsnesbardagi, sem fór fram árið 1246, er kenndur við. Ekki langt undan, norðan við bæinn, er Flugumýri þar sem fólk var brennt inni árið 1253, í lok brúðkaups sem átti að vera til að stilla friðinn milli stríðandi ættarvelda landsins.
Á grundunum norðvestur undan Haugsnesinu, á því svæði þar sem talið er að orrustan hafi farið fram, hefur Sigurður Hansen á Kringlumýri komið upp útilistaverki, grjóther. Þar er stillt upp 1320 grjótum, jafnmörgum þeim mönnum sem tóku þátt í bardaganum þegar fylkingunum laust saman.
Grjótin eru tekin af Djúpadalsár sem rennur á milli Haugsness og Kringlumýrar. Krossmark er á nokkrum steinum sem táknar þá sem féllu í bardaganum. Grjótherinn er í göngufæri frá afleggjaranum upp að Kringlumýri/Skriðu/Djúpadal. Gönguleið er að grjóthernum frá bílastæði við afleggjarann þar sem er skilti sem útskýrir aðstæður. Sömuleiðis er hægt að komast að grjóthernum ef genginn er slóð frá Syðstu-Grundarbæ, þar sem er skilti sem segir frá Haugsnesbardaga. Við þá sömu slóð er róðukross sem Jón Adólf Steinólfsson, skurðlistamaður, gerði fyrir félaga á Sturlungaslóð. Til að minnast falls Brands Kolbeinssonar, síðasta ættarhöfðingja Ásbirninga, sem féll í Haugsnesbardaga fyrir Þórði kakala. Með honum hrundi veldi Ásbirninga.
Höfundar texta: Sigríður Sigurðardóttir, Kristín Jónsdóttir og Sara R. Valdimarsdóttir. Ljósm. Sigríður Sigurðardóttir.