top of page

Flugumýri

Flugumýri var eitt af höfðubólum Ásbirninga á 13. öld. Kolbeinn ungi og Helga Sæmundardóttir bjuggu þar á fimmta áratug 13. aldar, til 1245. Hólastóll eignaðist jörðina í nokkur ár eftir dauða Kolbeins og Gissur Þorvaldsson keypti jörðina af stólnum 1253. 

Eftir að Þórður kakali vann Skagafjörð af Ásbirningum í Haugsnesbardaga 1246 laut mestur hluti landsins, allt Vesturland, Vestfirðir og Norðurland, yfirráðum hans. Hann fór til Noregs 1251 og setti Eyjólf ofsa Þorsteinsson yfir Norðvesturland og Hrana Koðránsson yfir Norðausturlandi. Gamlir bandamenn Þórðar, Hrafn Oddsson, Sturla Þórðarson og fleiri réðu yfir ríkjum hans á Vesturlandi og Vestfjörðum.

Flugumyri1.jpg

Árið 1252 komu þeir Gissur Þorvaldsson, Þorgils skarði Böðvarsson og Finnbjörn Helgason frá Noregi, allir hirðmenn konungs, með þau áform að leggja Ísland undir Hákon konung en hann hafði veitt þeim öll goðorð Þórðar kakala. Þórður hafði verið hirðmaður konungs frá unga aldri og greinilegt var að konungur áleit að hann gæti ráðstafað eigum hans að eigin vild. Með útkomu Gissurar, Þorgils og Finnbjörns hófst ný lota í valdaættaátökum á Íslandi. Ásbirningar í Skagfirði voru aldrei tryggir Þórði kakala, þótt þeir viðurkenndu yfirráð hans í orði kveðnu og fögnuðu Gissuri Þorvaldssyni á Hestaþingshamri þegar hann las þeim konungsbréf um að hann hefði yfirráð í Skagafirði. Gissur hafði verið handgenginn hirðmaður Hákonar konungs frá því hann var í konungsgarði á tvítugsaldri, eins og margir fleiri ungir íslenskir höfðingjasynir á þeim tíma.

Vorið 1253 keypti Gissur Flugumýri af Heinreki biskupi. Helga Sæmundardóttir, ekkja Kolbeins unga, hafði gefið kirkjunni jörðina manni sínum dauðum til sáluhjálpar, en hann dó margbannfærður. Hræðsluáróður og ægivald kirkjunnar yfir sálum manna voru slík að fólk gaf allar eigur sínar sér og sínum til syndaaflausna, beygði sig fyrir bannfæringum og hét á Guð sér til hjálpar. Gissur flutti í Flugumýri strax vorið 1253 með konu sinni Gróu Álfsdóttur, Halli syni sínum og öðru heimilisfólki, um 30 manns. Hann fór til Alþingis um sumarið með miklu liði, en óvinir hans vestra, Sturla og Hrafn umboðsmenn Þórðar kakala, komu ekki. Hann bauð þeim þá til sáttafundar á Breiðabólsstað í Vesturhópi og í þeirri sáttaleit hóf Hallur sonur Gissurar bónorð til Ingibjargar dóttur Sturlu. Það var samþykkt. Skyldi brúðkaupið vera um veturnætur á Flugumýri og skildu allir sáttir.

Eyjólfur ofsi sat á Möðruvöllum í Hörgárdal. Gissur rak allt fólk hans úr Skagafirði og hugði Eyjólfur á hefndir. Hann og Hrani Koðránsson ráðgerðu að fara að Gissuri eftir brúðkaupsveisluna og drepa hann og syni hans. Kona Eyjólfs, Þuríður Sturludóttir eggjaði mann sinn mjög og vildi blóðhefndir eftir föður sinn. Þuríður var dóttir Sturlu Sighvatssonar, sem Gissur hafði vegið í Örlygsstaðabardaga. Þórður kakali hafði sent orð frá Noregi og hvatt mjög til aðgerða og einnig hafði Eyjólfur styrk að því að hann naut hylli Heinreks Hólabiskups, sem hafði sinnast við Gissur eftir að hann seldi honum Flugumýri. Hrafn Oddsson, sem var á leið í brúðkaupið, var látinn vita af ráðabruggi Eyjólfs og Hrana og skorað á hann að ganga í lið með þeim, en hann neitaði því, en lofaði að þegja um ásetninginn.

Brúðkaupsveislan var sett á Flugumýri og drukkið í tvo daga. Var það hin besta veisla sem verið hafði á Íslandi í þann tíma, segir í Íslendinga sögu. Sátu þeir Ísleifur Gissurarson og Hrafn Oddsson saman og drukku og kysstust er hvor drakk til annars og hafa síðari tíma menn legið Hrafni á hálsi fyrir að sýna svo mikinn fláttskap og hafa slík vinahót við mann sem hann vissi að verið var að brugga banaráð. Þó mælti Hrafn aðvörunarorð til Gissurar um leið og hann reið brott úr veislunni en Gissur var alveg grandalaus enda aðvörunarorðin bæði tvíræð og óljós.

Þriðjudaginn eftir brúðkaupið, samtímis því sem síðustu gestirnir voru að leggja úr hlaði á Flugumýri riðu Eyjólfur og Hrani af stað frá Möðruvöllum. Höfðu þeir 42 manna vel búið lið, í hringabrynjum og með pansara. Á leiðinni mættu þeir gestum á leið heim úr veislunni. Reyndi Eyjólfur að fá þá til að vera með í aðförinni, en aðeins einn fékkst til að snúa við. Þeir riðu hratt um Norðurárdal og út Blönduhlíð. Tveir menn voru á verði á Flugumýri. Hljóp annar út að Þverá og lét vita, og þaðan hljóp maður yfir í Hegranes og að Reynistað að safna liði. Það lið kom þó of seint til Flugumýrar til að verða að gagni í vörninni. Hinn varðmaðurinn, Beinir að nafni, hljóp inn í skálann á Flugumýri og varaði menn við, en fór síðan í syðri útidyrnar og bjóst til að verjast. Óvinirnir voru þá þegar komnir þangað og felldu Beini.

 

Áður er þess getið að heimamenn á Flugumýri voru 30, en ekki er ljóst hversu margt vopnfærra manna var þar, líklega milli 10 og 20. Tvennar dyr voru á framhlið bæjarhúsanna, og sótti Eyjólfur að suðurdyrum, en Hrani Koðránsson að norðurdyrum. Tókst að loka hurð þar svo vel, að fimm menn undir stjórn Halls Gissurarsonar gátu varið dyrnar. Allir hinir gátu þá einbeitt sér að vörninni við suðurdyrnar. Næg vopn voru í skálunum og skildir. Höfðu þeir verið bornir inn kvöldið áður að fyrirskipan Gróu húsfreyju. Skálinn á Flugumýri skiptist í tvennt, var karlaskáli sunnan megin og kvennaskáli að norðan. Eyjólfur og menn hans komust inn í karlaskálann, og vörðust menn Gissurar í dyrum milli skálanna. Fremstur í flokki til varnar var Björn Ólafsson, kappi mikill, og gekk þeim Eyjólfsmönnum illa sóknin. Var vörn Björns frækileg. Var orrustan oft svo hörð að neistar flugu úr eggjum er vopnin mættust, og sáust vel því skuggsýnt var í skálanum. Loks tókst að hrekja menn Eyjólfs úr kvennaskála og skjaldborg var slegið fyrir dyrnar að skipan Gissurar. Þar gátu Eyjólfsmenn ekki sótt frekar á með vopnum. Þeir vissu sem var að verið var að safna liði gegn þeim í héraðinu, og góð ráð voru dýr. Þeir ákváðu að kveikja í húsunum.

 

Eldur logaði brátt um öll hús og varð af mikið reykjarkóf. Þau hjón Gissur og Gróa lögðust niður á gólf til að ná andanum, en það dugði skammt. Fóru þau út í anddyrið og þar urðu þau að skilja. Kom Ingibjörg Sturludóttir þar að, í náttserk einum klæða, en silfurbelti hafði vafist um fætur hennar. Gengu þær Gróa til dyranna og óskaði Gróa eftir því að Ingibjörgu væri veitt útganga. Ingibjörg vildi ekki ganga út nema hún fengi Hall mann sinn með sér en því var neitað. Gróa gekk aftur inn að leita að systursyni sínum 10 ára, sem hafði hlaupið út í logandi línklæðum án þess hún sæi það, og fannst hún síðar látin þar í anddyrinu, mjög brunnin. Kolbeinn grön, einn brennumanna og frændi Ingibjargar, hljóp inn í anddyrið og bar hana út rétt áður en það varð alelda. Hallur brúðgumi komst út en fékk högg í höfuðið og annað í fótinn, svo mikið að fóturinn fór nærri í sundur. Var Hallur dreginn til kirkju og dó hann þar um morguninn.

 

Skálaþakið féll inn og fórst þá margt manna, meðal annars tveir synir Gissurar, Ísleifur og Ketilbjörn. Alls létust tuttugu og fimm manns í brennunni. Gissur var sjálfur í skyrbúri. Hann fór úr verjum og í línklæðunum einum kom hann sér fyrir í sýrukeri sem þar var og faldi sig. Brennumenn komu í búrið og lögðu með spjótum í kerið og særðist Gissur en þeir urðu hans ekki varir og þó leituðu þeir tvisvar í búrinu. Bjargaðist Gissur þannig á ótrúlegan hátt.

 

Eftir þetta fóru brennumenn skjótt á brott, enda bjuggust þeir við árás úr héraðinu þá og þegar. Einn þeirra sá hvar Gissur hljóp til kirkju og sagði Eyjólfi frá en Eyjólfsmenn þorðu ekki að snúa aftur til að vinna á honum. Þannig varð öll herferðin til lítils því þeir náðu ekki foringjanum. Í Íslendinga sögu segir: „þessi tíðindi spurðust brátt, og þótti öllum vitrum mönnum þessi tíðindi einhver mest hafa orðið hér á Íslandi, sem guð fyrirgefi þeim, er gerðu, með sinni miklu miskunn og mildi.“ Ennfremur segir: „Á Flugumýri brann mikið fé, er margir menn áttu, er þar voru. Og margir menn höfðu þangað léð gripa sinna, dúnklæða og annarra gripa, og brann það allt …En það brann þó mest á af fémunum, sem Gissur átti, - fyrst bærinn á Flugumýri, er enginn var jafn virðulegur í Skagafirði fyrir utan staðinn á Hólum. Þar voru öll hús mjög vönduð að smíð, forskálar alþiljaðir til stofu að ganga, skáli altjaldaður og stofa. Þar brunnu og margir gripir er átti Ingibjörg Sturludóttir“ ( Sturlunga saga I, 1946. Bls. 494).

Gissur náði ekki foringjum brennumanna því hann var kvaddur á fund konungs 1254. Yfir ríki sitt skipaði hann Odd Þórarinsson frá Valþjófsstað í Fljótsdal og fól hann honum að halda áfram viðureigninni við brennumenn.

- - -

Í fjallshlíðinni fyrir ofan bæinn er Virkishóll. Þar eru veggjabort sem talið er að geti verið frá tíma Kolbeins unga. Gönguleið liggur frá kirkju og upp á Virkishól.

 

- - -

Flugumýri er landnámsjörð Þóris dúfunefs, sem frægur varð af því að kaupa vonina í hryssu sem stökk útbyrðis af hafskipi sem kom með búfénað í Kolkuós, og hvarf hún í skóginn. Þórir fann hryssuna og gaf henni nafnið Fluga og reyndist hún eitt mesta afbragðshross landnámsaldar og bærinn við hana kenndur.

Kirkja hefur verið á Flugumýri frá fornu fari og var núverandi kirkja þar byggð 1930. Kvennaskóli Skagfirðinga var á Flugumýri 1880-1882. Í Flugumýrarkirkjugarði hvílir Jón Espólín sagnaritari.

Höfundar texta: Sigríður Sigurðardóttir, Kristín Jónsdóttir og Sara R. Valdimarsdóttir.

bottom of page