top of page

Baksvið sögunnar

Á miðöldum skipuðu Íslendingar sér undir 36 og síðar 39 goðorð. Bændur, þeir menn er stóðu fyrir búi, völdu sér goðorð til að vera í og þar með að fylgdu þeir þeim goða sem því réði. Goði var sá sem réði goðorði. Goðar gátu neitað að taka við bónda sem þeim leist ekki á og bóndi gat valið sér hvaða goða sem var og skipt um ef vera vildi. Goðorðin voru þess vegna ekki landfræðilega afmörkuð svæði heldur tengsl milli manna, þess sem hafði forystu og þeirra er fylgdu.

Godord.jpg

Á Norðurlandi voru 12 goðorð en níu í hverjum hinna fjórðunganna. Meginreglan var sú að goðorð gengu í arf, en það var líka hægt að kaupa þau eða fá þau gefins. Einn maður gat ráðið goðorði og menn gátu líka skipt þeim með sér. Eins gat einn maður ráðið yfir fleiri en einu goðorði og sú var þróunin orðin á 13. öld. Þá varð einn goðanna í hverjum fjórðungi valdameiri en hinir. Einskonar oddviti þeirra. Vinsælir goðar höfðu marga stuðningsmenn og bændur fylktu sér um þá en ríkir og valdamiklir goðar gátu kúgað þá valdaminni til að selja sér eða gefa goðorð þeirra sem minna máttu sín. Þannig söfnuðust goðorðin til fárra ætta. Í byrjun 13. aldar var mest öllu Íslandi skipt upp í valdasvæði fimm ætta.

 Á 13. öld voru þrjú goðorð í Skagafirði. Eitt var vestan Vatna, annað austan Vatna og það þriðja í Skagafjarðardölum. Þegar þar var komið sögu lutu þau öll sömu ættinni, Ásbirningum.

Hirðmenn

Tengsl íslenskra höfðingja við Noregskonunga og aðra höfðingja í Noregi voru ýmisleg. Íslenskir höfðingjar voru margir tíðir gestir í Noregi og framan af öldum virðist það hafa verið hluti í uppeldi höfðingjasona að þeir færu til Noregs og dveldust við hirð konungs eða einhvers höfðingja. Einhvers konar skólaganga. Væntanlega til að læra hvernig höfðingjar áttu að haga sér. Margir þeirra tóku þátt í hernaði og lærðu þá vopnaburði og hermennsku. Í Sturlungu eru nefndir nokkrir íslenskir höfðingjar sem þágu vegtillur hjá konungi og gerðust hirðmenn hans. Þeirra á meðal voru Snorri Sturluson, þeir bræður Sturla Sighvatsson og Þórður kakali, Þorgils skarði og Gissur Þorvaldsson:

 

  • Hirðmaður – var maður sem fylgdi konungi, jarli eða öðrum aðalsmönnum og sóru viðkomandi trúnaðareið. Þeir höfðu skildum að gegna innan hirðarinnar á meðan þeir dvöldu þar og urðu að lúta hirðlögum, um réttindi og mannvirðingar, en nutu í staðin ýmissra fríðinda og réttinda. 

  • Skutilsveinn – var upphaflega borðsveinn eða þjónn sá sem bar fram mat – en síðan titill æðstu hirðmanna konungs.

  • Lendur maður – var maður sem hafði fengið land að léni frá konungi.

 

Snorri Sturluson og Þórður kakali voru fyrst skutilsveinar og síðar lendir menn. Hákon konungur virðist hafa litið svo á að hann tæki það land í arf sem menn hans fengu yfirráð yfir eða hefði a.m.k einhver ítök með þeim höfðingjum sem hann tók í hirð sína.

 

Á 13. öld var greinilegt að Noregskonungur og fleiri norskir höfðingjar vildu ná tangarhaldi Íslandi.

Bryndis6.jpg

Textinn byggist á köflum í ritinu Á Sturlungaslóð í Skagafirði, sem félagið á Sturlungaslóð gaf út árið 2003 og aftur árið 2017. Höfundar texta eru: Árni Daníel Júlíusson og Sigríður Sigurðardóttir, sem vann kortið. Teikn. Bryndís Björgvinsdóttir.

bottom of page