top of page

Aðrir spennandi viðkomustaðir

Nokkrir staðir í Skagafirði, sem tengjast Sturlungasöguatburðum og -persónum, eru þess virði að skoða og fræðast um.

Einn er Hegranesþingsstaður, sem er einn merkilegasti minjastaður landsins. Þar voru háð vorþing á þjóðveldisöld (930-1262) áður en haldið var til Alþingis. Þar voru einnig haldin fjórðungsþing sem voru sameiginleg fyrir  Norðlendingafjórðung. Enn má sjá tóftarbrot frá þeim tíma. Þar glímdi Grettir Ásmundarson dulbúinn við menn á þinginu. Hann var þá útlagi en var heitið griðum áður en menn þekktu hann og fékk hann að fara þaðan óáreittur.  Ver var tekið á móti Álfi úr Króki, sendimanni Noregskonungs, árið 1304 og var gerður aðsúgur að honum þegar hann boðaði landsmönnum nýjar álögur, sem Skagfirðingar mótmæltu harðlega, eins og aðrir landsmenn.  

Hegranesthing.jpg

Annar er Geldingaholt þar sem Oddur Þórarinsson varðist frækilega. Geldingaholt var höfuðból og kirkjustaður á miðöldum og var kirkjan helguð Pétri postula. Geldingaholtskirkja var aflögð árið 1765. Þórður kakali bjó þar árið 1252, áður en hann var kallaður út á fund Noregskonungs. Gissur Þorvaldsson var einnig kallaður á konungsfund 1254. Þá fékk hann Odd Þórarinsson Svínfelling til að verja ríki sitt í Skagafirði og til að fáast við brennumenn sem kveiktu í Flugumýrarbæ. Oddur sem bjó á Valþjófsstað hafði einnig mannaforráð á Austfjörðum ásamt Þorvarði bróður sínum, sem bjó á Hofi í Vopnafirði. Oddur var rétt liðlega tvítugur þegar hann kom í Skagafjörð og var á Flugumýri. Skagfirðingar tóku honum vel, enda var Oddur mikill atgerfismaður. Oddi gekk vel að fást við brennumenn en lenti upp á kant við Heinrek Hólabiskup sem bannfærði hann. Nokkrum dögum eftir bannfæringuna var Heinrekur biskup staddur á Fagranesi á Reykjaströnd að vígja nýtt kirkjuhús. Oddur frétti af því og reið þangað með 20 manna lið. Kom hann þar að er biskup var að hefja máltíð og reyndi að sættast við hann. Bauðst Oddur til að ríða brott úr Skagafirði ef biskup vildi ábyrgjast að brennumenn kæmu ekki í héraðið. Biskup kvaðst ekki geta ábyrgst það, en bað Odd að ríða á brott til síns heima á Austfjörðum. Oddur hafnaði því. Lauk fundum þeirra þannig að Oddur og félagar hans tóku biskup nauðugan með sér og færðu að Flugumýri. Sat biskup þar í haldi í virkinu sem Kolbeinn ungi hafði látið gera fyrir ofan bæinn. Þetta framferði ofbauð mönnum og safnaðist brátt mannfjöldi heim að Flugumýri sem vildi fá biskup lausan. Lét Oddur undan á endanum. Á meðan biskup var í haldi voru hvergi sungnar tíðir og hvergi hringt klukkum í biskupsdæminu, sem sýnir vald og helgi biskupsembættisins þrátt fyrir hin veraldlegu áflog. Eftir þetta reið Oddur austur að Valþjófsstað og sat þar um hríð.

Hann kom svo aftur í Skagafjörð og hertók bæinn Geldingaholt. Þar bjó Kolfinna Þorsteinsdóttir, systir Eyjólfs ofsa eins Flugumýrarbrennumanna og góð vinkona Þórðar kakala. Þegar það spurðist söfnuðu Eyjólfur ofsi og Hrafn Oddsson liði í Eyjafirði og Svarfaðardal. Þann 13. janúar 1254 riðu um 80 manns yfir Hjaltadalsheiði og ofan Hjaltadal. Sléttur ís lá yfir öllu og hefur verið sjón að sjá hersinguna ríða alvopnaða út dalinn og fram Eylendið. Þeir komust nánast óséðir að bænum. Oddur hljóp á móti þeim í grænum kyrtli og bar sverð, skjöld og stálhúfu. Hann komst langt niður á völl enda var hann „manna fimastur við skjöld og sverð þeirra allra, er þá voru á Íslandi,“ segir í Sturlungu. Einn maður, Már Eyjólfsson, fylgdi honum og voru þeir algjörlega ofurliði bornir þótt Oddur verðist af fádæma hreysti. Enginn gat komið á hann sárum á meðan hann hafði krafta. „Hlífði hann sér með skildinum, en vá með sverðinu eða sveiflaði því í kring um sig. Hann varðist svo fræknilega, að varla finnast dæmi til á þeim tímum, að einn maður hafi betur varizt svo lengi á rúmlendi fyrir jafn margra manna aðsókn úti á víðum velli“ (Sturlunga saga I, 1946. Bls. 515). Eftir harða hríð fleygði maður sér aftan á fætur Odds, sem þá var orðinn mjög móður og felldi hann. Óskaði Oddur prestsfundar en fékk ekki og unnu margir á honum. 

Geldingaholt.jpg

Fyrri mynd: Geldingaholt er til vinstri á miðri mynd. Mælifell ber við himinn.

Seinni mynd: Miklabæjarkirkja.

Mikilbaer.jpg

Þriðji er  Miklibær í Blönduhlíð sem kom töluvert við sögu á Sturlungaöld. Árið 1217 keypti Kálfur Guttormsson, sem áður bjó á Grund í Eyjafirði, Miklabæ. Sighvatur Sturluson og Halldóra Tumadóttur fluttu þá í Grund en ágætur vinskapur var á milli Kálfs og Sighvatar. Kolbeinn ungi lét drepa Kálf og Guttorm djákna son hans árið 1234 af því að honum var talin trú um að þeir sætu á svikráðum við hann. Kálfur var einn mesti bóndi í Skagafirði á sínum tíma. Hann var tengdafaðir Brands Kolbeinssonar á Stað í Reyninesi, sem tók við ríki Ásbirninga þegar Kolbeinn ungi féll frá 1245. Brandur var  giftur Jórunni Kálfsdóttur. Ólafur chaim, sem var bóndi á Miklabæ 1246 var góður liðsmaður Brands.

Í ágúst árið 1238 gisti Sturla Sighvatsson með hluta af liði sínu þar nóttina fyrir Örlygsstaðabardaga og þangað flúðu bræður hans, Kolbeinn og Þórður, til að leita griða í kirkjunni. Sem ekki dugði þeim því þeir voru teknir þaðan og höggnir ásamt fleirum. Kirkjan stóð nærri bæ því hægt var að ganga á milli „kirkju­garðs og útibúrs“. Þegar menn Sturlu voru dregnir úr kirkjunni eftir orrustuna spurði einhver Kolbein unga hvort hann vildi ekki gefa sveininum grið „Þórði frænda þínum? Kolbeinn mælti: Fór sá nú, er skaði meir var að“. Átti hann þar við Kolbein Sighvatsson á Grenjaðarstað bróður Þórðar króks. Þegar Þórir jökull var leiddur undir höggið kvað hann þá frægu vísu sem hefst svo: Upp skalt á kjöl klífa, köld es sjávar drífa, kostaðu hug þinn herða, hér muntu lífit verða. ...

Sennilega er Oddur Gíslason (1740-1786) þekktasti prestur sem þjónað hefur á Miklabæ. Ráðskona hans hét Solveig. Hún var ástfangin af presti. Þegar hann kvæntist annarri konu 1777 varð Solveig sinnisveik og reyndi ítrekað að farga sér. Það tókst henni þann 11. apríl 1778. Hún var jarðsett utan kirkjugarðs eins og þá var gert við þá sem tóku líf sitt sjálfir. Sagt var að hún gengi aftur. Nokkrum árum seinna, þann 1. október 1786, fór séra Oddur til messugjörðar á Silfrastöðum, en skilaði sér aldrei aftur úr þeirri ferð og var leitað lengi. Margar sögur urðu til um hvarf séra Odds og fullyrt að Solveig hefði átt þátt í hvarfi hans. Í bréfi frá árinu 1789 kom fram að lík séra Odds hafði fundist þá um vorið í læknum Gegni, sem er gamall árfarvegur fyrir neðan bæinn.

 

Á 18. öld var séra Þorvaldur Ólafsson prestur á Miklabæ. Sonur hans var Gottskálk Þorvaldsson (1741-1806) faðir Bertels Thorvaldsen (1770-1844) myndhöggvara. Í kirkjunni sem nú stendur, frá 1973, er steinmynd af Bertel Thorvaldsen, eftirmynd af sálfsmynd listamannsins, sem gerð var um miðja 20. öld þegar verið var að laga listaverk á veggjum Thorvaldsenssafnsins i Kaupmannahöfn.

 

Í Miklabæjarkirkjugarði hvíla m.a. skáldið og skurðmeistarinn Bólu-Hjálmar (1796-1876) og fjallagarpurinn og ljós­mynd­ar­inn enski, Frederick W.W Howell (1857-1901), sem drukknaði í Héraðsvötnum.

Fjórði er Glaumbær á Langholti, landgóð jörð og fornt höfuðból. Glaumbær tengist sama fólki og bjó á Reynistað á 11. öld, þeim Guðríði Þorbjarnardóttur og Þorfinni karlsefni. Þau keyptu Glaumbæjarlönd og bjuggu þar um tíma. Eftir að Guðríður varð ekkja gekk hún suður til Rómar sér til sáluhjálpar. Snorri Þorfinnsson, sonurinn sem fæddur var á Vínlandi, tók við Glaumbæjarbúinu af móður sinni. Talið er að kirkja hafi fyrst risið í Glaumbæ í þeirra tíð en kirkja sú sem nú stendur var vígð 1926.

 

Hallur Þorsteinsson, sem bjó í Glaumbæ á 13. öld fylgdi Sighvati Sturlusyni að málum en snerist á sveif með Kolbeini unga eftir að hann sá hvernig fór fyrir Kálfi á Miklabæ. Hallur barðist með Kolbeini gegn Sighvati á Örlygsstöðum 1238. Eftir að Kolbeinn féll frá gekk Hallur til liðs við Brand Kolbeinsson á Reynistað, ættarhöfðingja Ásbirninga og barðist með honum í Haugsnesbardaga 1246. Hallur seldi Hrafni Oddssyni riddara og síðar hirðstjóra Glaum­bæ árið 1254 og þar með fór staðurinn úr eigu afkomenda Vínlandsfaranna. Sonarsonur Hrafns, kallaður Glaumbæjar-Hrafn og var Jónsson, var talinn mesti höfðingi Skagafjarðar á sínum tíma. 

Glaumbaer.jpg
  • Höfuðstöðvar Byggðasafns Skagfirðinga hafa verið í Glaumbæ frá 1952. Þá opnaði safnið munasýningu í gamla torfbænum, sem þá var kominn í vörslu Þjóðminjasafns Íslands. Bærinn er í húsasafni Þjóðminjasafnsins.

  • Byggðasafn Skagfirðinga er með sýningar á fleiri stöðum í Skagafirði, s.s. í Áshúsinu, sem er 19. aldar timburhús, byggt 1883-7 í Ási í Hegransesi. Húsið var flutt þaðan í Glaumbæ árið 1991. Annað 19. aldar hús er á safnlóðinni og hýsir það skrifstofur safnsins. Það hús kallast Gilsstofa og er endurgerð húss frá 1849. Það var fyrsti sýslukontór Skagfirðinga. Sigurður Hansen á Kringlumýri gaf safninu það hús. 

  • Safnmunir í sýningum utan höfuðstöðva safnsins eru hjá Vesturfarasetrinu á Hofsósi og Sögusetri íslenska hestsins, á Hólum í Hjaltadal.

Fimmti er Fosslaug í landi Reykja í Tungusveit sem félagið á Sturlungaslóð fékk leyfi árið 2011 til að hreinsa upp úr og hlaða í kring um. Laugin er skammt fyrir ofan hinn gullfallega Reykjafoss og dregur nafn af honum. Laugin er við flæðarmál Svartár. Margar heitar laugar eru í landi Reykja og þar áðu og sameinuðust fylkingar Kolbeins unga og Gissurar Þorvaldssonar daginn fyrir Örlygsstaðabardaga, 20. ágúst árið 1238. Vafalaust hafa menn þá baðað sig í einhverri Reykjalauginni eða Steinsstaðalaug, eftir langt ferðalag, hresst sig við og lagt á ráðin. Hægt er að ganga að Fosslaug frá Vindheimamelum eftir götum sem liggja á bakkanum á móti Reykjafossi, yfir brú á affalla og meðfram Svartá þar til laugin blasir við. Hún er um 40°C heit en þar er engin aðstaða önnur en náttúran sjálf.

Reykjafoss.jpg
  • Á Reykjum í Hjaltadal var Reykjalaug, betur þekkt nú sem Biskupslaug. Sagt hefur verið að Guðmundur góði hafi gengið til þeirrar laugar sér til heilsubótar á meðan hann var á Hólum.

  • Úti á Reykjaströnd var einnig Reykjalaug. Hún var með öllu horfin á seinni hluta 20. aldar. Árið 1992 var heit uppsrettan beisluð aftur og laug hlaðin upp að nýju. Kallaðist sú Grettislaug til heiðurs sögupersónunni Gretti Ásmundarsyni. Hún er vinsæll viðkomustaður ferðamanna.

Höfundar texta: Sigríður Sigurðardóttir, Kristín Jónsdóttir, Sara R. Valdimarsdóttir. Ljósmyndir: Sigríður Sigurðardóttir. 

bottom of page